Í síðustu viku, nánar tiltekið 22.-27. september stóð Álklasinn fyrir viðskipta- og fræðsluferð til Québec í Kanada, hjarta álframleiðslu Norður-Ameríku. Í ferðina fóru 20 manns frá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum í Álklasanum, eins og álverunum, verkfræðistofum, frumkvöðlafyrirtækjum og þjónustuaðilum. Um var að ræða fimm daga ferð með þéttri dagskrá. Afar vel var tekið á móti íslensku sendinefndinni og greinilegt er að kanadískur áliðnaður er farinn að horfa meira austur til Evrópu. Íslenska ál-sendinefndinn heimsótti tvö álver, Rio Tinto Alma og Alcoa Deschambault, Laval háskóla ásamt fjölda fyrirtækja og tvær rannsóknarstofnanir. Tveir systurklasar Álklasans, AluQuébec og Aluminium Valley Society aðstoðuðu við skipulag ferðarinnar ásamt Invest Québec. Þessi ferð hefur lengi verið í býgerð, en upphaflega var ætlunin að heimsækja Québec árið 2020, eftir að kanadísk sendinefnd heimsótti Ísland árið 2018.
Kort sem sýnir helstu áfangastaði ferðarinnar, álverin í Alma og Deschambault ásamt gististaðina, Québec City og Saguenay.
Mánudagurinn 22. september var ferðadagur. Flogið var frá Keflavík til Toronto og þaðan til Québec City, elstu borgar Kanada (stofnuð 1608). Þar hitti hópurinn starfmenn íslensku og kanadísku sendiráðanna sem slógust í för með það sem eftir var.
Á þriðjudeginum fór hópurinn eldsnemma af stað í rútu sem keyrði okkur til Rio Tinto Alma álversins, sem er í Saguenay-dal, um 2,5 klukkutíma akstursleið frá Québec City. Þar beið okkar Patrice Bergeron, yfirmaður álversins, sem sagði okkur frá umsvifum Rio Tinto í héraðinu sem og sögu áls í Kanada, en fyrsta álver Kanada var byggt árið 1900. Hópurinn fór svo í skoðunarferð um Alma álverið, því næst var Arvida Research and Development Centre heimsótt, en rannsóknarstofan þar hefur verið helguð álrannsóknum frá stofnun árið 1946. Að því loknu fór hópurinn í sagnfræðileiðangur um svæðið, og kíktum við meðal annars á Arvida álbrúnna, sem er eitt af kennileitum svæðisins. Að skoðunarferð lokinni var blásið til netagerðar- og kokteilakvölds í Réfraco&Robexco þar sem ferðalangar fengu að kynnast hinum ýmsu fyrirtækjum sem hluti eru af Álklasanum í Saguenay (Aluminium Valley Society), en um 70 manns tóku þátt í viðburðinum.
Frá netagerðar- og kokteilakvöldinu í Saguenay, Lilianne Savard framkvæmdarstjóri Aluminum Valley Society fer með tölu.
Miðvikudagurinn hófst í Saguenay á heimsókn til Charl-Pol, fyrirtækis sem sérhæfir sig í kerviðgerðum. Hópurinn skiptist svo í tvennt. Hluti hópsins fór og heimsótti PCP Aluminium, sem framleiðir mjög nákvæmar Al5083 álplötur úr börrum, og Centre des technologies de l‘aluminium rannsóknarstofuna. Rannsóknarstofan, sem er hluti af National Research Council Canada, stundar ýmsar iðnaðarrannsóknir og er tækjabúnaður og rannsóknaraðstaða fyrsta flokks. Hinn hluti hópsins fór og hitti mismunandi tækjaframleiðendur; Dynamic Concept, STAS, EPIQ og ConformIT að heimsóknum loknum fóru allir ferðalangar aftur til Québec City.
Hópurinn í heimsókn hjá Charl-Pol kerviðgerðarfyrirtækinu í Saguenay.
Alcoa Deschambault álverið var heimsótt fyrir hádegi á fimmtudeginum, en álverið mætti kalla flaggskip Alcoa í Kanada. Þar fengum við mjög áhugaverða skoðunarferð sem veitti innsýn í mismunandi hluta rekstursins, en yfirmaður álversins, Pascal Roschette, leiddi okkur í gegnum verksmiðjuna. Að skoðunarferð lokinni fengum við hádegisverð og fyrirlestur frá Alcoa Breakthrough Technologies. Eftir heimsóknina í Deschambault skiptist hópurinn aftur í tvennt, þar sem annar hluti ferðalanga fór í Laval Háskólann í Québec City á meðan hinn hlutinn heimsótti Estampage JPL sem framleiðir kerlok. Í Laval háskóla tók Prófessor Carl Duschene á móti okkur, en rannsóknarhópur hans stundar rannsóknir á betrumbótum á mismunandi sviðum álframleiðslu.
Rannsóknarstofur Laval Háskóla rannsakaðar.
Föstudagurinn 26. september var svo að mestu leiti frjáls dagur. Ferðalangar réðu sér sjálfir, og á meðan sumir spiluðu golf funduðu aðrir með mögulegum viðskiptavinum, fulltrúum stjórnvalda og/eða fóru í heimsókn til Laserax, sem framleiðir laser-merkingarvélar fyrir áliðnaðinn. Um kvöldið var svo flogið aftur til Toronto og þaðan til Íslands, en hópurinn lenti hress og kátur á Keflavíkurflugvelli klukkan 8:30 laugardaginn 27. september.
Íslenska ál-sendinefndin út að borða á La Buchette í Québec City.
Álklasinn þakkar öllum ferðalöngum, skipuleggjendum og móttökuaðilum fyrir samveruna og að gera þessa ferð jafnfrábæra og hún var!