SAMÞYKKTIR FYRIR ÁLKLASANN 

 

1.gr.

Félagið er almenn félagasamtök og er heiti þess „Álklasinn“.

2. gr.

Heimili félagsins og varnarþing er að Árleyni 2-8, 112 Reykjavík.

3. gr.

Álklasinn er fyrirtækjadrifinn klasasamstarfvettvangur fyrirtækja, stofnana, menntastofnana og annarra aðila sem starfa á sviði sem tengist álframleiðslu með einum eða öðrum hætti.

Tilgangur félagsins er að efla samkeppnishæfni innan Álklasans með virðisauka fyrir þau fyrirtæki sem þar eru og auka sýnileika og nýsköpun á þessu sviði.

Miðað er við að samstarfið hafi eftirfarandi áhrif:

-                 Efling innviða og aukin samkeppnishæfni Álklasans.

-                 Efling rannsóknar, þróunar og nýsköpunar innan Álklasans.

-                 Samantekt og miðlun upplýsinga um Álklasann.

-                 Vettvangur faglegrar umræðu sem stuðlar að framþróun Álklasans.

-                 Víðfeðmara framboð þjónustu, menntunar og þekkingar innan Álklasans.

-                 Aukin verðmætasköpun afurða og þjónustu í Álklasanum.

-                 Auknar innlendar og erlendar fjárfestingar innan Álklasans.

-                 Aukinn útflutningur á vöru og þjónustu fyrirtækja Álklasans.

4. gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með skipulögðu samstarfi, sem stýrt er af klasastjóra. Samstarfið grundvallast á verkefnum sem klasaaðilar hafa þegar skilgreint auk verkefna sem klasaaðilar munu skilgreina í framtíðinni og eru til þess fallin að efla samkeppni innan klasans og styrkja innviði hans.

Virk þátttaka klasaaðila er forsenda þess að samstarfið hafi ávinning í för með sér. Öllum klasaaðilum, sem skráðir eru í félagið, er frjálst að taka þátt í eins mörgum verkefnum og þeir vilja. Ennfremur er sérhverjum klasaaðila heimilt að hafa frumkvæði að samstarfsverkefnum á vettvangi Álklasans.

5. gr.

Stofnfélagar eru:

Heiti stofnfélaga

Kennitala

Alcoa Fjarðarál sf

5203034210

Alu 1ehf

4502850489

Austurbrú ses.

640512-0160

Efla verkfræðistofa

6210790189

Eimskip Ísland ehf.

4211043520

Elkem Ísland ehf.

6406750209

GMR Endurvinnsla ehf.

5406101930

Hamar ehf .

4312982799

Háskóli Íslands

6001692039

Háskólinn í Reykjavík ehf.

5101054190

HRV sf.

6001692039

Íslandsbanki

4910080160

Íslandsstofa

6909861599

Járn og Blikk ehf.

6511911069

Keilir, miðstöð vísinda fr ehf.

5005070550

KPMG  ehf.

590975-0449

Alur Álvinnsla/Kratus

4307002270

Landsbankinn hf.

471008-0280

Landsvirkjun

4202691299

Launafl ehf.

4906061730

Mannvit

4305720169

Málmsteypa Þorgríms Jónssonar ehf.

420787-1709

Norðurál ehf.

4704042130

Nýsköpunarmiðstöð Íslands

5806070710

Promennt ehf.

6703002260

Rio Tinto Alcan á Íslandi hf.

6804660179

Samál, Samtök álframleiðenda

4309101240

Samskip hf.

4409861539

Samtök Iðnaðarins

5110932019

Verkís hf.

6112760289

VSÓ Ráðgjöf ehf.

6812720979

 

6. gr.

Öllum einstaklingum, fyrirtækjum, félagasamtökum, stofnunum og öðrum sem vilja vinna að markmiðum félagsins er frjálst að gerast aðili að Álklasanum.

Aðilar öðlast inngöngu í félagið með því að greiða árlegt félagsgjald til félagsins, samkvæmt ákvörðun aðalfundar hverju sinni. Félagsgjaldinu má skipta í tvær greiðslur ef óskað er eftir því.

 Klasastjóri undirritar samninga við nýja samstarfsaðila, fyrir hönd félagsins, þar sem félagsgjald kemur meðal annars fram. Samningar eru ótímabundnir, með þriggja mánaða uppsagnarfresti.

 

6. gr. a)

Álklasinn skilgreinir sprotafyrirtæki á eftirfarandi hátt:

Sprotafyrirtæki eru venjulega sprottin upp úr rannsókna eða þróunarverkefnum einstaklinga, þróunarhópa, háskóla, rannsóknastofnana eða annarra fyrirtækja og byggjast á sérhæfðri þekkingu, tækni eða öðru nýnæmi. Gengið er út frá því viðmiði að árlegur þróunarkostnaður sprotafyrirtækja sé að jafnaði yfir 10% af veltu. Fyrirtæki hættir að teljast sprotafyrirtæki þegar það hefur verið skráð í kauphöll sem öflugt tæknifyrirtæki eða náð veltu sem nemur einum milljarði íslenskra króna eða er farið að skila hagnaði af reglulegri starfsemi

 

Uppfylli fyrirtæki skilgreiningu Álklasans á sprotafyrirtæki, getur fyrirtækið sótt um að gerst aðili að Álklasanum sem álsproti og er þá undanþegið greiðslu félagsgjalds.  Álsproti hefur rétt til þátttöku í klasahópum og verkefnum klasans og eru á póstlistum klasans. Álsprotar geta ekki óskað eftir stjórnarsetu og taka ekki þátt í aðalfundi Álklasans.

Umsókn samkvæmt ákvæði þessu er metin af stjórnarformanni og varaformönnum. Fáist þeirra samþykki er aðild veitt til eins árs í senn, að þeim tíma liðnum getur fyrirtækið sótt um endurnýjun.

7. gr.

Þau samstarfsverkefni sem unnin eru á vettvangi Álklasans og þær afurðir sem af þeim hljótast, eru almennt í eigu félagsins.

Leggi klasaaðili til sérstaka hugmynd eða sérstakt fjármagn til einstakra verkefna, umfram það sem fram kemur í aðildarsamningum klasaaðila, skal eignarhald á afurð/um og ábyrgð verkefnanna skilgreint og ákveðið fyrirfram í samráði við klasastjóra og stjórn félagsins – og eftir atvikum í samráði við aðra klasaaðila sem koma að viðkomandi verkefnum.

8. gr.

Aðilar að félaginu bera ábyrgð á skuldbindingum félagsins með félagsgjaldi sínu, sbr. 6. gr. þessara samþykkta, ef aðrar eignir félagsins hrökkva ekki fyrir skuldum. Að öðru leyti bera félagsmenn ekki ábyrgð á skuldbindingum félagsins og eru skuldir þess þeim óviðkomandi.

9. gr.

Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.

10. gr.

Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum aðalfundar þess.Aðeins fulltrúum þeirra klasaaðila sem skráðir eru í félagið er heimilt að vera þátttakendur í aðalfundi. Aðalfund skal halda eigi síðar en í maíár hvert og skal stjórn félagsins boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Hver klasaaðili sem skráður er í félagið hefur einn atkvæðisrétt á aðalfundi og ræður einfaldur meirihluti mættra klasaaðila úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar vegna liðins starfsárs lögð fram
  3. Reikningar liðins starfsárs lagðir fram til samþykktar
  4. Ákvörðun um félagsgjöld
  5. Kjör endurskoðunarfélags eða skoðunarmanns
  6. Endurskoðun siðareglna félagsins
  7. Önnur mál

Auka félagsfundi skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða að kröfu 1/3 skráðra klasaaðila í félaginu. Skal krafan skriflega gerð og fundarefni tilgreint. Stjórn félagsins skal boða til fundarins með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Auka félagsfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Hver klasaaðili sem skráður er í félagið hefur einn atkvæðisrétt á auka félagsfundi og ræður einfaldur meirihluti mættra klasaaðila úrslitum mála.

Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins, um slit félagsins eða sameiningu þess við önnur félög eða fyrirtæki má ekki taka til meðferðar á fundum þess nema þess hafi verið getið í fundarboði.

Fundargerðarbók skal haldin og í hana skráð það sem gerist á aðalfundum og auka félagsfundum félagsins.

  

11. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð þeim klasaaðilum sem greiða stjórnargjald  til þess hverju sinni, samkvæmt viðmiðunarfjárhæðum stjórnar. Öllum klasaaðilum skal gefinn kostur á að greiða þá fjárhæð félagsgjalda sem veitir þeim aðgengi að stjórnarsetu í félaginu.  Hver klasaðaili getur einungis haft einn fulltrúa í stjórn.

Stjórnin skiptir með sér verkum og velur sér formann. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda og ber faglega ábyrgð á störfum félagsins. Firmaritun félagsins er í höndum meirihluta stjórnar.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum. Halda skal fundargerð um stjórnarfund.

Formaður boðar stjórnarmenn og áheyrnarfulltrúa til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður, sem og klasastjóri, getur krafist stjórnarfundar.

Stjórn félagsins er heimilt að skipa þriggja manna rekstrarráð sem hefur sérstakt eftirlit með rekstri félagsins.

Stjórnarmönnum eru ekki greiddar sérstakar þóknanir fyrir stjórnarsetu.

12. gr.

Stjórn Álklasans ræður klasastjóra samkvæmt þjónustusamningi.

Klasastjóri sinnir daglegri starfsemi félagsins í samráði við stjórnarformann og stjórn. Klasastjóri skal stuðla að því að tilgangi félagsins skv. 3. gr. samþykkta þessara verði náð m.a. með því að:

-                 Lóðsa, skipuleggja og styðja við starf þeirra hópa sem starfa að einstökum samstarfsverkefnum. Í því felst m.a. að skipuleggja fundi hópanna, boða til þeirra, stýra þeim, vinna verkefni á milli funda og halda vinnustofur í samræmi við ákvarðanir hópmeðlima. Klasastjóri skal leita til og greiða einstökum sérfræðingum fyrir veitta vöru eða þjónustu eftir því sem þörf krefur í tengslum við störf hópanna.

-                 Hafa góða yfirsýn yfir samstarfsverkefni félagsins og framgang þeirra.

-                 Samþætta og samræma samstarfsverkefni félagsins eftir því sem við á, sérstaklega með tilliti til þess að verkefnin geta skarast.

-                 Bera ábyrgð á að framkvæmd verkefnanna verði samkvæmt áætlun og að framvinda þeirra verði sem árangursríkust.

-                 Kynna starfsemi félagsins út á við.

-                 Hafa með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og koma fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varða venjulegan rekstur.

-                 Annast reikningshald og bókhald félagsins.

-                 Annast skýrslugerð og samantektir um stöðu og þróun klasasamstarfsins.

-                 Leita tækifæra til að styrkja fjármögnun samstarfsins enn frekar með öflun nýrra félagsaðila, styrkumsóknum o.þ.h.

-                 Halda stjórn félagsins (og rekstrarráði ef við á) upplýstri um stöðu og þróun samstarfsins hverju sinni.

 

13. gr.

Kostnaður við rekstur Álklasans er fjármagnaður með félagsgjöldum og öðrum greiðslum félagsmanna sbr. 6. gr. þessara samþykkta, styrktarfé, vöxtum og öðrum fjármagnstekjum, auk annarra tekna.

Félagið hefur sjálfstæðan fjárhag. Stjórn félagsins ber ábyrgð á fjárreiðum þess.

Halda skal aðskildum fjármunum félagsins annars vegar og einstakra afmarkaðra verkefna hins vegar. Stjórn félagsins skal sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og almennar reikningsskilavenjur.

14. gr.

Á aðalfundi félagsins skal kjósa endurskoðunarfélag og/eða skoðunarmann sem skal endurskoða reikninga félagsins fyrir hvert starfsár. Endurskoðendur má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins.

15. gr.

Aðalfundur skal samþykkja siðareglur sem gilda skulu um samskipti og samstarf félagsaðila innan félagsins hverju sinni.

16. gr.

Klasaaðilar gera ekki arðsemiskröfu til starfsemi félagsins. Verði hagnaður af rekstri félagsins skal honum einungis ráðstafað til eflingar starfseminnar í samræmi við markmið félagsins. Félaginu er óheimilt að verja hagnaði, réttindum eða eignum til annarra verkefna en þeirra sem samrýmast markmiðum og starfsemi félagsins, enda liggi fyrir ákvörðun stjórnar um ráðstöfun hverju sinni. Það er ekki tilgangur félagsins að fjárfesta í né eiga eignaraðild að öðrum félögum.

17. gr.

Ákvörðun um breytingar á samþykktum félagsins skal taka á aðalfundi eða auka félagsfundi sem boðað hefur verið til með löglegum hætti, með einföldum meirihluta atkvæða þeirra skráðra sem mættir eru.

Ákvörðun um slit félagsins, skipti þess eða samruna við annað félag skal taka á aðalfundi eða auka félagsfundi sem boðað hefur verið til með löglegum hætti, með einföldum meirihluta atkvæða þeirra sem mættir eru.

Verði félaginu slitið skulu eignir umfram skuldir renna til almannaheilla í samræmi við framangreint markmið félagsins. Fundur, sem tekið hefur löglega ákvörðun um slit, skipti eða samruna félagsins, skal einnig ákveða ráðstöfun eigna og greiðslu skulda í samræmi við framangreint. Verði félagið lagt niður skal stjórn þess gera upp skuldir og eignir og slíta svo rekstri þess.

 

Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins í Reykjavík, 24. maí 2016