Álklasinn hefur sett 10 áhersluverkefni á oddinn til þess að raungera framtíðarsýn klasans til 2030:
- Þróunarsjóður Álklasans – ÞRÁ
Rannsóknarsjóður sem fjármagnar bæði grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir á sviði álframleiðslu og vinnslu skal verða stofnaður. Umhverfis- og losunargjöld tryggja fjármögnun sjóðsins. Sjóðurinn verði ein af undirstöðum háskólamenntunar á sviðinu og framþróun geirans almennt.
- Verkefnasmiðja Álklasans - stefnumót álfyrirtækja, tæknifyrirtækja, verkfræðistofa og menntastofnana
Árlegu stefnumóti fyrirtækja í geiranum verði komið á fót þar sem vandamál eru tengd við lausnir. Skilvirkt ferli eru til staðar til að koma á samtali og samstarfi um nýsköpunar- og þróunarverkefni innan klasans.
- Afburðasetur "Center of excellence" til þróunar á nýjum tæknilausnum fyrir áliðnaðinn
Afburðasetur með heimsklassa aðstöðu til þróunar á tæknilausnum fyrir áliðnaðinn verði komið á fót á Íslandi. Forskot íslenskra þróunaraðila í fjármagn sé þannig tryggt með góðri aðstöðu og samstarfi innanlands.
- Hugmyndabankinn - verkefnagátt
Verkefni og áskoranir sem álgeirinn er að kljást við verði sett fram á sýnilegan hátt með sprotafyrirtæki, þjónustuaðila, menntastofnanir og nemendur í huga. Ýmis verkefni og áskoranir verði þannig vel kynnt áhugaverðum aðilum.
- Umbætur á ívilnunum til nýsköpunar hjá stórum Álfyrirtækjum
Komið verði á umbótum í styrkveitingum þannig að stór fyrirtæki eins og álver geti fengið ívilnanir til þess að reka áfram nýsköpunarverkefni af auknum krafti. Þróunarsamstarf álvera við fyrirtæki innan klasans verði þannig eflt.
- Styðja verkefni um bindingu CO2 frá álverum
Aukin þátttaka fyrirtækja í iðnaðinum í rannsóknarverkefnum á sviði bindingar koltvíoxíðs frá álverum. Fyrirtæki innan klasans hafi frumkvæði að rannsóknarverkefnum á því sviði. Stuðningur og samstarf sé til staðar, við lausnir eins og Carbfix og Carbon Iceland.
- Arðspor Álklasans
Fjárhagsleg áhrif fyrirtækja innan klasans á samfélagið verði kortlagt, bæði beint og óbeint. Sparnaður fyrirtækja vegna nýtingar á efni sem áður var fargað skuli metinn. Sparnaður fyrirtækja vegna nýtingar á innlendri þjónustu skuli metinn.
- Verkefnahópar Álklasans
Verkefnahópar á sviði umhverfis-, loftslags- og úrgangsmála verði stofnaðir. Þekkingarsamfélög Álklasans á sviði samfélagsmála, sjálfbærni, umhverfismála, öryggismála og heilsumála verði sköpuð og nærð.
- Samantekt á aukaafurðum álframleiðslu og tækifærum til áframvinnslu
Upplýsingar um aukaafurðir álframleiðslunnar og áframnýtni þeirra skuli teknar saman. Sýnt verði fram á tækifæri til áframvinnslu aukaafurða og málþing haldið fyrir fjárfesta og frumkvöðla.
- Nýsköpunarkeppni Álklasans
Þekking og áhugi nemenda á úrvinnslu áls og áltengdum störfum verði aukinn. Meiri þátttaka og samvinna verði meðal iðn- og háskólanema í nýsköpun.